Skilalýsing

Skilalýsing þessi er hluti af kaupsamningi orlofshúsa í Hálöndum. Upplýsingar í skilalýsingu geta breyst á byggingartíma. Leitast verður við að halda a.m.k. sambærilegum gæðum ef vörur eða íhlutir orlofshúsanna breytast.

Byggingaraðili
SS Byggir ehf. hefur starfað í byggingariðnaði síðan 1978 og hafa verkefni fyrirtækisins verið margvísleg. Þau sem unnin hafa verið á eigin vegum eru t.d Hjallalundur 18-20-22, Tröllagil 14, Skálateigur 1-3-5-7, Strandgata 3, Vestursíða 8a & b og Brekkugata 36 (Baldurshagi) Brekkugata 38 (Myllan). Dæmi um önnur verkefni eru t.d.: Skrifstofur Norðurorku, Giljaskóli, stækkun á húsnæði FSA, Verslunarmiðstöðin Glerártorg, stækkun Amtsbókasafns, Brekkuskóli og Naustaskóli. Fyrirtækið starfar eftir gæðakerfi sem skilar sér í vönduðum íbúðum, góðri þjónustu og skilum íbúða á umsömdum tíma. Stefna fyrirtækisins er að eiga gott og náið samstarf við kaupendur.

 

Hönnun Arkitekt húsanna er Logi Már Einarsson hjá Kollgátu ehf . Húsin eru um 106m2, þrjú svefniherbergi, tvær snyrtingar, rúmgott alrými (stofa/eldhús) forstofa og pottrými. Við húsið er upphituð geymsla, kjörin fyrir skíði eða annan viðlegubúnað. Pottrýmið er útbúið svalahurð út á rúmgóðan sólpall.   

Frágangur utanhúss
Útveggir: Allir útveggir húsanna eru steinsteyptir og einangraðir að utan með 120mm steinull. Húsin eru klædd að utan með lituðu stáli, láréttri báru að mestu leyti. 
Gluggar og hurðir: Allir gluggar og útihurðir eru timbur-álgluggar nema annað komi fram. Gluggarnir eru smíðaðir úr furu en að utanverðu eru þeir klæddir áli. Svalahurð í pottrými er rennihurð úr áli. Tvöfalt verksmiðjugler frá viðurkenndum framleiðanda er í húsunum og flyst ábyrgð þess áfram til kaupenda. . 

Þakgerð: Einhalla þök eru á húsunum, þökin eru steinsteypt, einagruð og klædd þakdúk.

Sólpallar og stéttar
: Sólpallar eru steyptir með snjóbræðslu. Stéttar eru steyptar og útbúnar snjóbræðslu. Lóðir: Leitast er við að halda náttúrulegu yfirbragði lóða eins og kostur er. 

Loftræsting:
Vélræn loftræsting er í pottrýmum, baðherbergi og þvottahúsi/snyrtingu.

Frágangur innanhúss
Útveggir: Allir útveggir eru sandspartslaðir og málaðir.

Berandi innveggir: 
Allir berandi innveggir eru sandspartlaðir og málaðar. 

Innveggir
: Allir innveggir/léttveggir eru gipsklæddir á stálstoðum, sandspartslaðir og málaðir.
Loft: Loft alrýmis eru klædd hljóðdempandi gipsplötum. Einnig eru hljóðdempandi plötur í hluta svefnherbergja, önnur loft eru spörtluð og máluð.

Gólf: Gólfplötur eru búnar gólfhita og staðsteyptar. Gólfhiti er í öllum gólfum dvalarrýma en inntaksgrind í geymslum upphitar sjálfar geymslurnar.
Lagnir: Hitalagnir eru í gólfi orlofshúsa. Neysluvatnslagnir eru lagðar skv. verkfræðiteikningum, rör í rör. 
Rafmagn: Raflagnir eru fullfrágengnar, ljósakúplar á baðherbergjum, pottrýmum og í forstofum. Önnur ljós fylgja ekki. Útiljós við innganga verða frágengin. Uppsettur reykskynjari fylgir hverju húsi. 
Baðherbergi: Veggir á baðherbergjum eru flísalagðir inn í sturturými. WC eru innbyggt og er kassinn flísalagður. Sturtugólf eru einhalla og aðskilin með 80 cm glerveggjum. Innréttingar samkv. teikningum. 

Forstofur: Forstofur eru rúmgóðar og útbúnar snögum.  

Geymsla: Í geymslu eru inntök húsanna, þar er gólf málað en aðrir fletir málaðir á gróft yfirborð.

Innréttingar og skápar: Innréttingar eru í eldhúsum og á baðherbergjum. Opnir skápar eru svefnherbergjum. Harðplast er á borðplötum. Með eldhúsinnréttingum fylgja bakarofn og keramik helluborð af viðurkenndri gerð. Gert er ráð fyrir uppþvottavél en hún fylgir ekki.

Hurðir: Innihurðir eru spónlagðar með eik, íslensk framleiðsla. Handföng eru með stáláferð.

Hreinlætistæki: Öll blöndunartæki eru af viðurkenndri gerð og koma þar sem teikningar sýna. Í baðherbergi er sturta. Hitastillir er á blöndunartækjum. Blöndunartæki í eldhúsi og í þvottahúsi eru svo kölluð „einnar-handa“ tæki.  Eldhúsvaski er einfaldur og djúpur. Blöndunartæki í eldhúsi eru svo kölluð „einnar-handa“ tæki. 
Eldvarnir: Hvert hús er sjálfstætt brunahólf. Reykskynjari og handslökkvitæki verður sett upp í hverju húsi.  

Annað:
Öllum húsum fylgir læstur lyfjaskápur.

Bílastæði:
Við öll húsin eru tvö bílastæði.  
 
Breytingar: Allar breytingar, hvort sem er á lögnum, innréttingum, tækjum eða öðru,  greiða kaupendur sérstaklega fyrir og skulu óskir um breytingar berast til skrifstofu SS Byggis tímanlega. SS Byggir ber ekki ábyrgð á því ef slíkar breytingar seinka afhendingu orlofshúsa. Sjá nánar upplýsingamöppu kaupandans.
 
Afhending: Áætlaður afhendingartími orlofshúsa er samkomulagsatriði. Afhending húsanna telst hafa farið fram þegar lyklaafhending og yfirferð eiganda og fulltrúa fyrirtækisins hefur farið fram. Sjá nánar upplýsingamöppu kaupanda.